INNLJÓS
í útihúsunum að Kleifum við Blönduós 7. – 22.júlí 2018

Í ár blæs Listasafn ASÍ í annað sinn tilmenningarlegrar útrásar með sýningu á verkum Sigurðar Guðjónsson, í þetta sinnnorður í Húnavatnssýslu austanverðri á slóðum Heiðarvígasögu, að Kleifum við Blöndu, gegnt Hrútey.
Það kemur nú í hlut Sigurðar Guðjónssonar aðglíma við útihúsin að Kleifum með verkum sem vöktu óskipta athygli gesta í kapellu Sankti Jósefsspítalans í Hafnarfirði síðastliðið haust. Fuser - sem dregur heiti sitt af prentvalsinum sem festir liti ljósritans við pappírsörkina með ofurhita og býr prentmyndina þannig til með nýrri tækni – verður sett upp í hlöðunni, hæstu einingu útihúsanna. Í fjósinu, víðustu einingunni af húsunum þrem verður Scanner staðsett, verkið sem byggir á ferilgeisla skanna –ljósritunarvélar - meðan hann fetar sig eftir glerplötunni neðanverðri undirspegilsléttu og gagnsæju yfirborði tækisins. Skúrinn, minnsta einingin í útihúsasamstæðunni mun svo hýsa Spegilvarpann – Mirror Projector – upptöku af auga ofurvenjulegs glæruvarpa eins þeirra sem fundust í flestum skólum landsins fyrir daga stafrænna myndvarpa.

Þannig eru verk Sigurðar á sýningu hans INNLJÓS eins konar óður til tækjanna sem honum og öðrum myndgerðarmönnum eru svo nærtæk að þau jafnast á við hljóðfæri og hljómtæki tónlistarmannsins og tónskáldsins. Þau eru áhöldin sem myndlistarmanni samtímans eru nauðsynleg, rétt eins og dráttarvélin og vélorfið eru bóndanum. En svo vakna ýmsar spurningar varðandi útfærslu verkanna á Kleifum, sömu verkanna og áhorfendur nutu á liðnu ári í kapellu hins aflagða Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þótt verkin séu hin sömu er útkoman öll önnur. Eins og Sigurður útfærir vídeóverk sín mætti fremur líkja þeim við uppfærslur en innsetningar. Nýtt og öðruvísi rými færir til merkingu verkanna svo þau ganga í endurnýjun lífdaga og stafa í allt öðru inntaki í skjóli Hrúteyjar en í bænahúsi sjúkrahússins. Uppfærslan verður óhjákvæmilega hluti af verkinu.

Hvergi sannar vídeólistin yfirburði sína yfir aðra miðla myndlistarinnar en einmitt við svona kringumstæður og á þær kann listamaðurinn að spila eins og góður hljóðfæraleikari. Það sem í kapellu og líkhúsi spítalans hafði yfir sér yfirbragð drunga, trega og handankenndar mun að öllum líkindum lifna við í útihúsum Kleifa sem vorboði til dýrðarfjölbreytilegri náttúrunni í námunda við verkin og umgjörðina.

Enn eitt prikið fyrir hina kornungu vídeólistfelst í efnisleysi miðilsins og meðfærileik. Í samanburði við aðra listmiðlahefur myndlist oft goldið fyrir fyrirferðina. Flutningur á ómeðfærilegum málverkum og höggmyndum um langan veg hamlar dreifingu slíkra listmuna. Með vídeólistinni eru menn jafnvígir hvar sem er á jarðarkringlunni. Blönduós verður jafn miðlægur og Hafnarfjörður. Þannig hefur myndlistin loksins öðlast þann sveigjanleika sem hingað til hefur talist til sérréttinda óefniskenndra lista á borð við bókmenntir og tónlist. Þessa byltingu skilur Sigurður og nýtir sér til fullnustu.

Halldór Björn Runólfsson, 2018