Sigurður Guðjónsson, Berg Contemporary, 2016

Sýningar Sigurðar Guðjónssonar mynda sterka heild og verk hans hafa skýr höfundareinkenni. Hann notar vídeó og hljóð – náttúruleg hljóð og hluti, vélar, manngert umhverfi og gömul tæki – af minimalískum aga en nær þó að draga fram í þessum viðfangsefnum mörg lög af merkingu og tilfinningum. Verkin snúast ekki síður um hljóðið en um myndræna innihaldið og hann hugsar sýningar sínar þannig að þær myndi einn samfelldan hljóðheim. Á þessari sýningu í BERG Contemporary sjáum við ný verk sem bera sömu, sterku höfundareinkennin, nákvæma úrvinnslu á jafnvel smæstu atriðum, naum framsetning verkanna og hinn flókni hugmyndaheimur sem þau opna.

Þegar maður gengur inn á sýninguna heyrir maður fyrst hljóð: Rafsuð, vélrænt surg og, í fjarska, dropandi vatn. Vídeóin sýna okkur hljóðgjafana, þrjú myndskeið sem renna í hring endalaust. Úr fjarlægð virðast myndirnar næstum hreyfingarlausar og í hverju skoti er aðeins eitt atriði sem hreyfist, líður og gefur frá sér hljóð. Líkt og á fyrri sýningum Sigurðar upplifir maður undarlega fegurð í þessum einföldu verkum, hreyfingin og endurtekningin seiða mann en þó er eitthvað dökkt og ógnandi við þessa upplifun. Það eru engar klippingar í vídeóinu, engin frásögn, og einmitt það vekur tilfinningu fyrir því að undir niðri ólgi einhverjir dularfullir og jafnvel ógnandi kraftar.

Í verkinu AV Machine sjáum við furðulega gamaldags græju, sambyggt kassettutæki og sjónvarp þar sem skjárinn er lítið stærri en nafnspjald. Það er kveikt á sjónvarpinu en við sjáum bara „snjó“ – raftruflanir úr andrúmsloftinu þar sem tækið er að leita að en finnur enga útsendingu. Þetta er enn eitt rafmagnstækið sem hefur úrelst og hefur ekki lengur tilgang. Hins vegar, ef við einbeitum okkur að myndinni, gætum við lesið meira úr því sem við sjáum og heyrum. Þeir sem eru að nálgast sextugt og muna eftir svona tækjum gætu litið á þetta sem tákn um æskuárin og sakleysislega bjartsýni þeirra tíma. Aðrir gætu skoðað verkið á fagurfræðilegum nótum, sem heimild um liðinn tíma, líkt og hrundar rústir eða minnismerki. Hvernig sem við nálgumst þessi verk eru þau margræð: Hlutirnir sem við sjáum, myndramminn og hljóðheimurinn mynda þrjú lög af merkingu sem koma saman í eina heild en geta vakið ótal túlkanir, tengingar og tilfinningar.

Í verkinu Tape sýnir Sigurður okkur aftur nýlega en útrunna tækni. Þetta er nærmynd af hljóðsnældu – kassettu – þar sem sem við sjáum hljóðbandið vindast af annarri spólunni yfir á hina. Séð svona í nærmynd fær þetta vélræna ferli meiri vídd. Hugurinn gæti hvarflað til leikrits eftir Beckett, til „mix-teipanna“ sem voru „playlistar“ níunda áratugarins eða til allrar neðanjarðarútgáfunnar sem tónlistarmenn og skáld þess áratugar létu frá sér á þessum nýja og ódýra miðli. Við getum horft á hreyfinguna í myndinni og séð þar líkindi við sporbauga plánetanna um Sól eða túlkað hana sem erfitt dæmi í hornafræði. Dæmið er óleysanlegt vegna þess að það er vélrænt en ófyrirsjáanlegt – og það er einmitt þetta sem heillar okkur. Við erum komin á öld hins stafræna þar sem allt má afrita án þess að nokkru smáatriði skeiki og þá greinum við fegurðina í ófullkomleika eldri tæknilausna: Í vínilplötum og segulböndum.

Það sem við sjáum varpað á vegginn er ekki bara myndin heldur miðillinn sjálfur. Sigurður hefur tekið þessi vídeó á stafrænar myndavélar og þessi samsláttur nýrra og eldri miðla bætir enn einu lagi af merkingu við sýninguna. Það sem við sjáum í AV Machine og Tape beinir huganum aftur á sjöunda og áttunda áratuginn þegar Steina og Woody Vasulka, Nam June Paik og fleiri frumkvöðlar voru að kanna listræna möguleika þessara nýstárlegu tækja. Við getum túlkað verk Sigurðar sem einhvers konar tileinkun, sem fortíðarhyggju eða sem hreinan formalisma, könnun á möguleikum mynda og hljóða án tillits til innihaldsins. Aftur sjáum við að verkin bjóða upp á margar túlkanir en einmitt það er einkenni listrænnar hugsunar og góðra listaverka.

Starf myndlistarmannsinns er mótsagnakennd iðja. Annars vegar horfir hann aftur, heldur sig við fagurfræðileg gildi og tekst á við efni sín og verkfæri af einbeitingu sem flestum okkur ofbýður nú þegar við höfum öll tölvutengingu og getum fengið matinn sendan heim. Hins vegar hafa listamenn alltaf tekið tækninýjungum vel og oft verið í fararbroddi í tækniþróun. Þegar við skoðum gömul myndlistarverk – frá Róm, endurreisnartímanum eða bara frá því fyrir nokkrum áratugum síðan – virðast þau gamaldags en einhvern veginn óumbreytanleg. Fyrir mörgum er þetta mælistika á listræna fegurð: Litirnir, áferðin og myndbyggingin eru svo gamalkunnug að við skoðum þau aldrei gagnrýnum augum. Þegar þessi verk voru búin til voru mörg þeirra samt sláandi nýstárleg og nýmóðins. Kannski voru það litirnir sem enginn hafði áður séð beitt svona eða voru úr jurtum og steinum sem nýlega höfðu fundist í nýlendum Evrópuveldanna eða búnir til í nýjustu efnaverksmiðjum iðnbyltingaraldarinnar. Kannski var það fjarvíddin sem kom á óvart, til dæmis ef listamaðurinn hafði nýtt sér linsur og myndvörpun eða nýjustu kenningar í rúmfræði. Í gegnum alla söguna hafa listamenn tileinkað sér – eða fundið upp – nýjustu tækni og beitt henni í listrænum tilgangi. Vídeólist er tiltölulega nýtilkomin en hún er líklega ekkert nýstárlegri en málverk Giottos þóttu á fjórtándu öldinni.

Verk Sigurðar minna að mörgu leyti á eldri tilraunir myndlistarmanna: Naum og nákvæm framsetningin minnir á kyrralífsmyndir frá sautjándu öld en gæti allt eins tengst tilraunum Man Ray og fleiri dadaista með filmu og hljóðupptökur á þriðja áratugnum.

Verkið sem maður kemur að í innsta salnum gæti verið lykill að mörgum túlkunum á þessari sýningu í BERG Contemporary. Það minnir á sum eldri verk Sigurðar þar sem manngert umhverfi, oft veðrað og ópersónulegt, verður sviðsmynd fyrir mynd- og hljóðspunann. Þetta er Well, vídeómynd skotin niður í steyptan, manngerðan brunn, af þeirri gerð sem við notum til að fá aðgang að holræsum og leiðslunum sem liggja undir fótum okkar og eru undirstaða nútímalífsins sem við lifum. Þar sem við horfum niður í brunninn sjáum við dagsbirtuna endurkastast af vatninu sem fyllir botninn og heyrum í dropunum sem falla niður í vatnið og óma í brunninum eins og kólfur í bjöllu. Rýmið breytist í eins konar dómkirkju eða ósnertan dropasteinshelli í upplifun okkar. Með öllum þeim breytingum sem orðið hafa á tækniumhverfi okkar og samfélagi verða mörkin milli okkar, náttúrunnar og tækninnar sem fyllir öskuhaugana sífellt ógreinilegri. Þegar við göngum gegnum sýningu Sigurðar og upplifum dáleiðandi myndir hans og hljóðheiminn sem verkin mynda saman endum við í þessu íhugunarrými, eins konar vin fyrir hugann, þar sem dropandi vatnið virðist opna okkur leið aftur til náttúrunnar, eins konar paradísarheimt.

 Jón Proppé, 2016